23. maí 2022

Ákvarðanir leiðréttar í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns

Stjórnvöld leiðrétta reglulega ákvarðanir sínar í tilefni af fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis. Kunna spurningar hans þá t.d. að varpa nýju ljósi á mál eða gefa tilefni til að endurskoða fyrri afstöðu. Á árinu 2021 lauk til að mynda 48 málum með leiðréttingu stjórnvalds og 9 með endurupptöku eftir umboðsmaður spurðist fyrir vegna kvartana sem honum bárust. Þetta var 10% heildarfjölda kvartana í fyrra.

Nýlegt dæmi þessa eru tilmæli frá Reykjavíkurborg til bílastæðasjóðs um að endurskoða ákvörðun um stöðubrotsgjald og endurgreiða það. Í kvörtun til umboðsmanns vegna málsins voru meðal annars gerðar athugasemdir við að ekki hefði verið tekin formleg ákvörðun af hálfu borgarinnar um að tiltekinn hluti Bankastrætis skyldi vera göngugata á því tímabili sem sektin var lögð á. Óskaði umboðsmaður því eftir upplýsingum frá borginni um hvenær og hver hefði ákveðið að Bankastræti yrði göngugata á umræddum tíma. Hvers vegna ákveðið hefði verið að taka niður merkingar um að umrætt svæði væri göngugata og þá hver hefði tekið þá ákvörðun. Enn fremur hvernig Reykjavíkurborg teldi að merkingar um göngugötu á þessum hluta Bankastrætis hefðu byggst á fullnægjandi grundvelli og þá hvort sektin hefði verið í samræmi við lög. Eftir yfirferð málsins, í framhaldi þessa, ákvað borgin að beina þeim tilmælum til bílastæðasjóðs að endurskoða málið, afgreiða það á réttum lagagrundvelli og endurgreiða gjaldið.   

  

Sjá nánar