01. júlí 2022

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Á þetta reyndi þegar móðir kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti synjun sjúkratrygginga á beiðni um greiðsluþátttöku vegna reiðhjólaslyss sem sonur hennar lenti í þegar hann var átta ára gamall. Í slysinu missti drengurinn tvær framtennur en ekki fjórar eins og sjúkratryggingar sögðu að væri forsenda, samkvæmt reglugerðinni, til að fá fjárhagsstuðning. Umboðsmaður benti aftur á móti á að í henni væri einnig kveðið á um að sjúkratryggður gæti hafa orðið fyrir „öðrum sambærilegum alvarlegum skaða“. Því væri um tvenns konar aðstöðu að ræða þar sem greiðsluþátttaka gæti komið til greina. Ótvírætt hefði átt að leggja mat á atviki málsins með hliðsjón af hvoru tveggja. Niðurstaða nefndarinnar hefði hins vegar eingöngu byggst á því að „nettótanntap“ drengsins hefði verið tvær tennur en ekki fjórar og ekki tekin afstaða þess hvort hann hefði orðið fyrir öðrum sambærilegum alvarlegum skaða. Úrskurður nefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11436/2021