16. nóvember 2022

Fjármála- og efnahagsráðuneyti spurt nánar út í stafrænt pósthólf

Umboðsmaður hefur óskað eftir frekari upplýsingum og skýringum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um ýmislegt er lýtur að stafrænu pósthólfi og lögum og reglum þar um.

Um nokkurt skeið hefur umboðsmaður að eigin frumkvæði haft ýmis atriði, vegna laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, til skoðunar. Þar á meðal hvort og þá með hvaða hætti fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi við innleiðingu laganna hugað að stöðu þeirra sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti gagnvart rafrænum miðlum. Samkvæmt svari ráðuneytisins á sínum tíma var ætlunin að fjalla sérstaklega um aðgengi þessa hóps í innleiðingaráætlun en að því er best verður séð er slíku ekki til að dreifa í þeirri áætlun sem nú liggur fyrir.

Í ljósi þessa og fleira sem umboðsmaður nefnir í bréfi sínu til ráðuneytisins, óskar hann meðal annars eftir því að það skýri hvernig unnið hafi verið að áformum um að fjalla í innleiðingaráætluninni um stöðu þeirra sem höllum fæti standa gagnvart stafrænum miðlum. Þá er beðið um nánari upplýsingar um stöðu mála sem ráðuneytið nefndi í bréfi til umboðsmanns og lutu að vinnu við að tryggja jafnt aðgengi allra að stafrænu pósthólfi. Meðal annars með hliðsjón af því að í áliti efnahags- og viðskiptanefndar, um frumvarp til fyrrnefndra laga, var ráðherra hvattur til þess að hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks við gerð innleiðingaráætlunar þannig að réttur þess til aðgangs að stafrænu pósthólfi yrði tryggður. Að endingu er þess óskað að ráðuneytið skýri hvernig svör Stafræns Íslands um fyrirhugað efni reglugerðar samræmist efni tiltekinnar lagagreinar. 

  

  

Bréf umboðsmanns til fjármála- og efnahagsráðuneytisins

 

Tengdar fréttir

Spurt um stafrænt pósthólf

  

Annmarkar á rafrænni stjórnsýslu