Stjórnvöld taka stundum upp mál, gera ráðstafanir til betrumbóta eða færa fram nánari skýringar þegar umboðsmaður grennslast fyrir um þau. Undanfarin tvö ár hefur um 10% kvartana lyktað með þessum hætti. Nýlegt dæmi um þetta birtist í umfjöllun umboðsmanns um kvörtun frá Blaðamannafélagi Íslands yfir viðbrögðum dómsmálaráðuneytis við erindi frá félaginu.
Gerðar voru athugasemdir við ráðstafanir á Keflavíkurflugvelli þegar öflugum ljóskösturum var beint að fjölmiðlafólki og störf þeirra trufluð þegar reynt var að mynda aðgerðir stoðdeildar ríkislögreglustjóra við brottvísun. Þar sem blaðmannafélaginu þótti viðbrögð ráðuneytisins ekki í samræmi við alvarleika málsins og að ráðherra hefði ekki séð tilefni til að upplýsa það með fullnægjandi hætti leitaði það atbeina umboðsmanns.
Óskaði hann eftir upplýsingum um hvað lá til grundvallar þeirri afstöðu ráðuneytisins að ekki hefði verið tilefni til frekari viðbragða og að ríkislögreglustjóri upplýsti einnig um atvikið. Í svari ráðuneytisins voru málsatvik tíunduð og útskýrt hvernig misskilningur virðist hafa valdið því að ljóskösturunum hefði verið beint að fjölmiðlafólkinu. Ríkislögreglustjóri hefði tafarlaust breytt verklagi við brottvísanir til að tryggja að atvik sem þetta endurtæki sig ekki. Þá var tekið fram að réttara hefði verið að veita Blaðamannafélaginu nánari upplýsingar, en komið hefðu fram í upphaflegu svari til félagsins, um þau sjónarmið sem bjuggu að baki afstöðu ráðuneytisins. Að fengnum þessum skýringum og þar sem Blaðamannafélagið, sem hafði einnig fengið þær sendar síðar frá ráðuneytinu, lýsti þeirri skoðun sinni að tilefni kvörtunarinnar væri um garð gengið taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að halda áfram athugun málsins.
Lokabréf umboðsmanns í máli nr. 12067/2023