28. júní 2023

Ófullnægjandi forsendur fyrir ákvörðun um vistun fanga á öryggisdeild

Samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að atvik stjórnsýslumáls séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á matskenndum lagagrundvelli verður ennfremur að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að beita þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ætlunin er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Á þetta reyndi í máli fanga sem kvartaði yfir þriggja mánaða vistun á öryggisdeild á Litla-Hrauni, þar sem hann vistaðist einsamall. Dómsmálaráðuneytið hafði kveðið upp úrskurð í málinu í tilefni kæru fangans þegar hann dvaldi á öryggisdeildinni. Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns vegna kvörtunar hans afturkallaði ráðuneytið fyrri úrskurð sinn vegna annmarka á rannsókn málsins og tók það til meðferðar á ný.

Í svari dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að skráningum í málinu hefði verið ábótavant. Að mati umboðsmanns var því óhjákvæmilegt að hafa það í huga þegar fullyrðingar fangans um skaðleg áhrif vistunarinnar væru metnar sem og athugasemdir hans um að ekki hefði verið greint rétt frá þjónustu og stuðningi. Umboðsmaður benti á að við mat á því hvort vista ætti fangann á öryggisdeildinni hefði ekki einungis átt að taka mið af sjónarmiðum um öryggi heldur einnig horfa til heilsu hans og velferðar.

Þótt ráðuneytið hefði leitast við að bæta úr annmörkum málsins við endurupptöku þess höfðu mikilvæg atriði ekki verið skráð með viðunandi hætti þannig að upplýsingalögum væri fullnægt. Þá var einnig langt um liðið og því erfiðleikum bundið að upplýsa atvik málsins eftir öðrum leiðum. Að mati umboðsmanns voru því ekki fullnægjandi forsendur, við uppkvaðningu síðari úrskurðar ráðuneytisins, til að taka afstöðu til þess hvort fanginn hefði notið þeirra réttinda sem lög og reglur áskilja, þ. á m. eftirlits heilbrigðisstarfsfólks, eða hvort meðalhófs hefði verið gætt við tilhögun vistunarinnar. Ráðuneytið hefði því ekki sinnt rannsóknarhlutverki sínu í samræmi við stjórnsýslulög og þá ábyrgð sem hvíldi á því sem eftirlitsaðila gagnvart Fangelsismálastofnun.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11373/2021