Í kjölfar úrbóta á verklagi hjá Útlendingastofnun hefur umboðsmaður lokið athugun sinni á fyrirkomulagi vegna umboðs talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá telur hann ekki tilefni að svo stöddu til að halda áfram athugun sinni á fyrirkomulagi birtingar úrlausna af hálfu kærunefndar útlendingamála eftir að hafa fengið ítarlegri upplýsingar um framkvæmdina.
Breytingarnar á verklagi Útlendingastofnunar varðandi form og efni umboða voru m.a. gerðar vegna fyrirspurna umboðsmanns. Umsækjendum um alþjóðlega vernd er nú gerð ítarlegri grein en áður fyrir hlutverki talsmanns við meðferð máls og hvaða þýðingu hann hefur. Þá er nú óskað eftir skriflegu samþykki umsækjanda fyrir því að tiltekinn talsmaður verði skipaður í máli hans.
Upphaflega beindist athugun umboðsmanns að kærunefnd útlendingamála, nánar tiltekið að umboði talsmanna þar og rafrænni birtingu úrlausna. Að fengnum skýringum nefndarinnar var þó ekki talin ástæða til halda málinu áfram gagnvart henni. Áfram verður þó fylgst með framkvæmdinni. Beinir umboðsmaður því til nefndarinnar að komi upp endurtekin tilvik af sama toga og varð kveikjan að málinu þá meti hún hvort bregðast þurfi frekar við.
Mál nr. F122/2022
Tengd frétt
Tvær fyrirspurnir vegna brottvísunar útlendinga