07. mars 2024

Reglugerð um hjálpartæki breytt í kjölfar fyrirspurnar

Reglugerð um styrki vegna hjálpartækja verður breytt eftir athugasemdir umboðsmanns. Heilbrigðisráðuneytið tekur undir að hún sé ekki nægilega skýr hvað snertir nauðsynleg hjálpartæki til leiks og tómstunda fatlaðra barna.

Í kjölfar álits í fyrra, þar sem umboðsmaður féllst ekki á að hjálpartæki sem væru nauðsynleg eða hentug til leiks og tómstunda barna með fötlun féllu utan efnismarka tiltekinnar greinar í lögum um sjúkratryggingar, var reglugerðinni breytt nú í janúar. Ekki tókst betur til en svo að ekki var fyllilega ljóst hvort reglugerðin tæki til nauðsynlegra hjálpartækja til leiks og tómstunda fatlaðra barna. Var því óskað eftir skýringum ráðuneytisins sem féllst á að skerpa þyrfti á orðalaginu.

Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er unnið að breytingu á reglugerðinni og hafa drög verið send til umsagnar hjá ÖBÍ réttindasamtökum og Íþróttasambandi fatlaðra. Gert er ráð fyrir að birta nýjar reglur nú í mars.

  

  

Tengd frétt

Heilbrigðisráðuneytið beðið um skýringar á ákvæðum í nýrri reglugerð um hjálpartæki