11. apríl 2024

Rangar forsendur fyrir réttri niðurstöðu

Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði ekki að öllu leyti réttar forsendur til grundvallar stöðubrotsgjaldi sem átti þó rétt á sér. 

Kvartað var yfir ákvörðun sjóðsins um álagningu stöðubrotsgjalds vegna bifreiðar sem lagt var á hellulögðum fleti innan lóðarmarka. Í kvörtuninni var einkum byggt á því að sektin væri ekki í samræmi við umferðarlög en jafnframt gerðar athugasemdir við forsendur ákvörðunarinnar. Í rökstuðningi sínum fyrir því að flöturinn væri staður sem óheimilt væri að leggja á, þar sem hann væri ekki ætlaður fyrir umferð skráningarskyldra ökutækja, vísaði Bílastæðasjóður m.a. til þess að ekki væri heimilt að nýta einkalóð sem bílastæði nema með samþykki byggingarfulltrúa og í samræmi við skipulag. Þar að auki væri afmarkað almenningsbílastæði á götunni fyrir framan flötinn sem lagt væri á.

Umboðsmaður benti á að fari stjórnvald með framkvæmd fleiri en einna laga mætti það ekki byggja ákvörðun sína, samkvæmt einni lagaheimild, á sjónarmiðum sem leiddu af annarri og óskyldri. Þannig mætti til dæmis ekki leggja á stöðubrotsgjald vegna brota á mannvirkjalögum. Hins vegar taldi hann ekki hægt að líta fram hjá því að fyrir framan innkeyrslu í umdeilda stæðið væri bílastæði ætlað til almenningsnota. Gera mætti ráð fyrir því að almennt veigraði fólk sér við að hindra för ökutækja inn og út af lóðinni með því að leggja fyrir innkeyrsluna. Umboðsmaður taldi því lagningu bifreiðar á fletinum til þess fallna að valda óþægindum fyrir aðra umferð, sem væri sjónarmið sem hér mætti líta til, og ekki væru því forsendur til að gera athugasemdir við sektina sem slíka. Úr því að stöðubrotsgjaldið átti rétt á sér, þótt forsendur þess væru að hluta til rangar, lauk umboðsmaður málinu með áliti án sérstakra tilmæla til Bílastæðasjóðs.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12178/2023