02. september 2022

Skortur á skýrum lagaheimildum til að takmarka heimsóknir til fanga í heimsfaraldrinum

Gæta þarf að því að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er við takmarkanir á réttindum fanga og slík inngrip verða að byggja á heimild í lögum. Þetta kemur fram í nýrri OPCAT-skýrslu umboðsmanns vegna eftirlitsheimsóknar í Fangelsið Kvíabryggju. Þar segir einnig að huga verði að almennum endurbótum á húsnæði fangelsisins og tryggja aðgengi fanga að nauðsynlegri tannlæknaþjónustu, óháð fjárhag þeirra.

Umboðsmaður heimsótti Kvíabryggju í mars 2022 og hefur þar með skoðað öll fangelsi landsins á grundvelli OPCAT-eftirlitsins sem hófst síðla árs 2018. Jafnframt var þetta fyrsta heimsókn hans þar sem ekki var tilkynnt fyrir fram um nákvæman komutíma.

Í skýrslunni er bent á að réttur fanga til heimsókna verður aðeins takmarkaður með lögum. Í því sambandi víkur umboðsmaður að heimsóknartakmörkunum í kórónuveirufaraldrinum og kemur á framfæri ábendingu við dómsmálaráðherra um að huga að því að fullnægjandi heimildir séu að lögum til slíkra skerðinga. Þá er tilmælum einnig beint til fangelsismálayfirvalda um að gæta að lagaskilyrðum við inngrip og takmarkanir gagnvart föngum vegna heimsfaraldurs.

Fram kom hjá föngum á Kvíabryggju að kostnaður við tannlækningar kæmi jafnvel í veg fyrir að þeir gætu sótt sér nauðsynlega tannlæknaþjónustu, ekki síst í ljósi takmarkaðra möguleika þeirra á að afla sér tekna meðan á afplánun stæði. Áður hefur verið bent á í skýrslum umboðsmanns að aðgengi fanga að nauðsynlegri tannlæknaþjónustu teljist ekki fullnægjandi ef fjárráð þeirra stýra því. Í samræmi við það og fyrri skýrslur umboðsmanns er því beint til fangelsisins að tryggja öllum föngum aðgengi að þessari nauðsynlegu þjónustu óháð fjárhag.

Umboðsmaður setur fram tilmæli og ábendingar vegna skorts á heimsóknar- og viðtalsaðstöðu sem og um almennt viðhald og endurbætur á húsnæði fangelsins. Hvorki er almenn aðstaða þar fyrir heimsóknir né aðstaða fyrir fanga til að taka í næði á móti lögmönnum, sálfræðingum eða annarri stoðþjónustu  

Í skýrslunni kemur fram að konum býðst alla jafna ekki vist á Kvíabryggju þar sem húsnæðið telst ekki hentugt til að hýsa kynin saman, einkum m.t.t. öryggis og aðstæðna kvenfanga. Vöknuðu því spurningar um hvort aðstöðuleysi kunni að valda því að konum bjóðist færri úrræði í fangelsiskerfinu. Í ljósi þessa getur ólík staða kynjanna í fangelsum hér á landi orðið tilefni til sérstakrar skoðunar umboðsmanns.

Ráða mátti að meðferðarstarfi og endurhæfingu í fangelsinu væri almennt ábótavant, m.a. í tengslum við nám. Í skýrslunni er vikið að áætlunum og aðgerðum stjórnvalda í þessum efnum og þeim tilmælum beint til ráðherra að fylgja þeim eftir. Þá kom umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri við fangelsismálayfirvöld að skoða hvort aðgengi fanga á Kvíabryggju að beinni stoðþjónustu væri lakara en annarra fanga þar sem færri slíkar heimsóknir væru þar en í öðrum fangelsum.

  

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á Kvíabryggju

  

Tengt efni

OPCAT-eftirlit á Kvíabryggju