Það er meginregla stjórnsýsluréttar að lægra settu stjórnvaldi beri að hlíta niðurstöðu æðra stjórnvalds. Þótt lægra sett stjórnvald sé ekki sammála úrskurði æðra stjórnvalds getur það ekki litið fram hjá niðurstöðunni og sett málið í annan lagalegan farveg en úrskurður kveður á um.
Á þetta reyndi í máli sem umboðsmaður lauk nýverið með áliti. Í því höfðu hjón óskað eftir að Þjóðskrá Íslands leiðrétti fasteignamat fasteignar þeirra fimm ár aftur í tímann. Málið var til meðferðar hjá stjórnvöldum í um fimm ár áður en endanleg niðurstaða fékkst í það og þjóðskrá leiðrétti fasteignamatið í samræmi við úrskurð yfirfasteignamatsnefndar. Á þessum tíma kærðu hjónin ákvarðanir Þjóðskrár Íslands þrisvar sinnum til yfirfasteignamatsnefndar. Auk þess leituðu þau til umboðsmanns bæði vegna tafa á afgreiðslu málsins og skorts á að stofnunin færi að úrskurðum nefndarinnar. Það var síðan ekki fyrr en umboðsmaður hafði ritað ráðuneyti málaflokksins bréf að þjóðskrá leiðrétti fasteignamatið endanlega til samræmis við úrskurð yfirfasteignamatsnefndar.
Í áliti umboðsmanns segir m.a. að til að stjórnsýslukæra skili borgurunum tilætluðum árangri verði lægra sett stjórnvöld að virða þá reglu að úrskurðir kærustjórnvalds séu bindandi fyrir lægra setta stjórnvaldið. Þjóðskrá hefði því sem lægra sett stjórnvald ekki haft svigúm til að leggja málið í annan lagalegan farveg þvert á niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar eða líta framhjá úrskurðum hennar í framkvæmd. Þá taldi umboðsmaður að verulega hefði skort á að þjóðskrá hefði afgreitt málið í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður ítrekaði að hann hefði áður bent á að af því fyrirkomulagi að setja upp sjálfstæðar úrskurðarnefndir, eins og yfirfasteignamatsnefnd í þessu máli, hefðu slíkar nefndir takmörkuð úrræði til að bregðast við þegar lægra sett stjórnvald færi ekki að úrskurðum þeirra, sbr. álit í málum nr. 9937/2019 og 9606/2019. Í þessu tilfelli taldi umboðsmaður að ástæða hefði verið til þess fyrir yfirfasteignamatsnefnd að upplýsa viðeigandi ráðuneyti um gang og stöðu málsins í ljósi yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess.
Umboðsmaður mæltist til þess að Þjóðskrá Íslands tæki mál þeirra sem kynnu að vera í sambærilegri stöðu og hjónin til endurskoðunar og leysti úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem lýst væri í álitinu. Jafnframt var mælst til þess að þjóðskrá tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum í störfum sínum.
Álit umboðsmanns í máli nr. 9758/2018