10. febrúar 2020

Frestun máls að beiðni aðila

Í þeim málum sem hafa borist umboðsmanni á síðustu mánuðum hafa oftar en áður komið upp álitaefni um hvort stjórnvöld hafi gætt að reglum um frestun máls, eins og nánar er mælt fyrir um í 18. gr. stjórnsýslulaga.

Við meðferð stjórnsýslumála hafa stjórnvöld ýmis stjórntæki til þess að upplýsa og afgreiða mál með þau markmið sem búa að baki stjórnsýslulögum að leiðarljósi. Mikilvægt stjórntæki sem stjórnvöld hafa til taks er að setja aðila máls frest, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að stjórnvaldi sé heimilt að setja málsaðila ákveðinn frest til þess að kynna sér gögn máls og tjá sig um það. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. getur aðili, að öðrum kosti, á hvaða stigi málsmeðferðar sem er krafist þess að afgreiðslu málsins sé frestað uns honum hefur gefist tími til þess að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Máli skal þó ekki frestað ef það hefur í för með sér að farið sé fram úr lögmæltum fresti til afgreiðslu málsins.

Þegar ákveðið er hvort og þá hvaða frest stjórnvald veitir vegast m.a. á sjónarmið um málshraða og að mál skuli nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Auk þess að gæta að rannsóknarskyldu sinni þurfa stjórnvöld til að mynda líka að huga að andmælarétti málsaðila. Þegar stjórnvald tekur ákvörðun um lengd frests þarf m.a. taka tillit til fjölda skjala og umfangs og eðlis málsins. Þetta þarf því að skoða í samhengi við ákvæði annarra laga sem geta haft áhrif hverju sinni.

Nýverið reyndi á álitaefni þessu tengdu í kvörtun sem barst umboðsmanni. Í því tilviki hafnaði úrskurðarnefnd velferðarmála beiðni um viðbótarfrest til að kynna sér ný gögn máls sem bæði voru töluvert umfangsmikil og sum á erlendu tungumáli. Að áliti umboðsmanns var afgreiðsla nefndarinnar ekki í samræmi við lög. Byggðist sú niðurstaða einkum á því að ekki hafi verið lagt fullnægjandi mat á beiðnina miðað við umfang og eðli þeirra gagna sem fyrir lágu í málinu.

Minnti umboðsmaður á að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga eiga að tryggja að fullnægjandi grundvöllur sé lagður að ákvörðunum stjórnvalda. Slíkt sé einnig liður í því réttaröryggi og trausti sem þurfi að vera til staðar í starfi stjórnsýslunnar.

 

 Álit umboðsmanns í máli nr. 9991/2018

 

Önnur nýleg álit þar sem reynt hefur á frestun mála

10089/2019 

9810/2018