26. október 2020

Lagaheimildir til sóttvarnaaðgerða vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur frá því í ágúst sl. átt í samskiptum og bréfaskiptum við forsætisráðuneytið og heilbrigðisráðherra um þörfina á að stjórnvöld huguðu að því hvort gildandi lagaheimildir til sóttvarnaaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19 séu fullnægjandi.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem umboðsmaður hefur nú fengið frá stjórnvöldum um vinnu við endurskoðun sóttvarnalaga hefur hann tilkynnt að hann telji ekki tilefni til að umboðsmaður Alþingis fjalli á þessu stigi almennt um gildandi lagaheimildir til þeirra sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til vegna COVID-19 en kemur þeirri ábendingu á framfæri að metið verði í hvaða mæli er þörf á að bæta eins fljótt og kostur er úr atriðum sem eru meira aðkallandi en önnur. Mál af þessum toga kunna þó áfram að koma til umfjöllunar umboðsmanns vegna kvartana sem berast en þeim sem hafa borist fram að þessu hefur lokið þar sem kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafa ekki verið tæmdar.

Tilefni og efni samskipta umboðsmanns við forsætisráðuneytið í ágúst sl. er lýst í bréfi hans til heilbrigðisráðherra frá 23. september sl., en því bréfi og bréfi til forsætisráðuneytisins, sama dag, óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hver væri staðan á úttekt á lagaheimildum til sóttvarnaráðstafana vegna COVID-19 sem hann hafði áður fengið vitneskju um í samskiptum við forsætisráðuneytið að stjórnvöld ætluðu að ráðast í. Þar hafði einnig komið fram að í framhaldi af úttektinni yrði metið hvort tilefni væri til lagabreytinga. Af þessari ástæðu óskaði umboðsmaður jafnframt eftir upplýsingum um hvort af hálfu forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra hefði, á grundvelli þeirrar vinnu sem þegar væri búið að vinna við úttektina, verið tekin afstaða til þess hver ættu að vera næstu skref í þeirri vinnu stjórnvalda.

Í svörum ráðuneytanna sem bárust umboðsmanni 13. október sl. kemur fram að 26. ágúst sl. hefði dr. Páli Hreinssyni verið falið að taka saman álitsgerð um þessi mál og henni hefði verið skilað 20. september sl. Álitsgerðin var rædd á fundi ríkisstjórnar 25. sama mánaðar en efni álitsgerðarinnar er nánar lýst í bréfum ráðuneytanna. Þar kemur einnig fram að hafinn sé undirbúningur að endurskoðun sóttvarnalaga og áætlað samkvæmt þingmálaskrá að leggja frumvarp þar um fram í janúar á næsta ári samkvæmt svari forsætisráðuneytisins en í bréfi heilbrigðisráðuneytisins er vísað til þess að forsætisráðherra hafi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 12. október sl. sagt að nú væri stefnt að því að birta drög að frumvarpi í samráðsgátt í nóvember og að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í desember. Í bréfi heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að áform um lagasetninguna og frummat hafi þegar verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Forsætisráðuneytið tekur fram í svari sínu að starfshópur sem vinni að yfirferð álitsgerðarinnar og samningu frumvarpsins muni meta hvort þörf sé á að hraða vinnu við undirbúning lagabreytinga að einhverju marki í ljósi þeirra ábendinga sem koma fram í álitsgerðinni um að sum atriði séu meira aðkallandi en önnur. Sjá nánar um svar ráðuneytanna í bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 8. október sl., og bréfi heilbrigðisráðuneytisins, dags. 13. október sl.

Umboðsmaður hefur í bréfi sem hann ritaði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra, 23. október sl., tilkynnt að í ljósi þeirrar úttektar sem stjórnvöld hafa þegar gert á lagalegri stöðu þessara mála þar sem fram kemur að þörf sé á að skjóta styrkari lagastoðum undir og skýra betur heimildir til  sóttvarnaaðgerða, og þeirra viðbragða sem lýst er í bréfum ráðuneytanna, telji hann ekki tilefni til þess af hálfu umboðsmanns Alþingis að fjalla frekar á þessu stigi almennt um þörfina á úrbótum á þessu sviði að öðru leyti en því að koma þeirri ábendingu á framfæri við ráðherrana að sem allra fyrst verði, í samræmi við það sem lýst var í svari forsætisráðuneytisins, lagt mat á í hvaða mæli er þörf á að bæta úr atriðum sem eru meira aðkallandi en önnur og tillögur um lausnir í því sambandi verði þá lagðar fyrir Alþingi eins fljótt og kostur er. Í bréfi umboðsmanns segir síðan:  

„Ég tek að lokum fram um þetta atriði að þótt vissulega hvíli á hlutaðeigandi stjórnvöldum ríkar skyldur til þess að gera nauðsynlegar sóttvarnaráðstafanir til að verjast og takast á við smitsjúkdóm af því tagi sem COVID-19 er þurfa stjórnvöld engu að síður, og sérstaklega þegar sleppir upphafsaðgerðum til að leggja mat á og takast á við farsótt, að gæta þess að fullnægjandi lagaheimildir séu þeim tiltækar til þeirra ráðstafana sem þau telja nauðynlegt að grípa til. Heimild ráðherra til að hafa frumkvæði að flutningi lagafrumvarpa á Alþingi er einmitt ætlað að tryggja ráðherra úrræði til að kalla eftir þeim heimildum sem hann telur sig þurfa og eru ekki þegar í lögum eða eru ekki fyllilega skýrar. Þótt ég hafi talið tilefni til þess að hvetja stjórnvöld til þess að huga betur að lagaheimildum til umræddra ráðstafana hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort lagaheimildir hefur skort til einstakra ráðstafana. Það verður ekki gert nema skoða þau einstöku tilvik sem koma upp og meta aðstæður í ljósi þeirrar lagaheimildar sem reynir á, og þá m.a. með tilliti til þeirra hagsmuna sem sóttvarnaráðstöfunum og inngripum stjórnvalda er ætlað að þjóna og tilvist og líkum á smiti. Á vettvangi umboðsmanns Alþingis kann að reyna á slíkt við úrlausn þeirra kvartana sem berast.“

Í bréfi umboðsmanns til forsætisráðherra og heilbrigisráðherra segir að lokum:

„Það leiðir hins vegar af eðli þeirra inngripa og áhrifa sem sóttvarnaaðgerðir vegna COVID-19 hafa haft bæði fyrir einstaklinga og atvinnufyrirtæki þar sem m.a. hefur reynt á stjórnarskrárvarin réttindi og fjárhagslegar afleiðingar að ég tel að stjórnvöld eigi að því er varðar lagalega umgjörð þessara mála að gæta þess fyrir sitt leyti að hún sé eins skýr og kostur er. Það er svo vitanlega Alþingis að taka endanlega afstöðu til þess hvaða heimildir stjórnvöld eigi að hafa í þessu efni. Það eru líka almannahagsmunir að lagaþrætur um þessi mál leiði ekki til þess að ónýta þann árangur sem sóttvarnaaðgerðum til að hemja bráðsmitandi sjúkdóm, sem í senn getur reynst lífi fólks hættulegur og sett starfsemi heilbrigðiskerfisins úr skorðum, er ætlað að ná.“

Í bréfi umboðsmanns til ráðherranna segir að í ljósi þess að fram hafi komið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi fjallað um álitsgerð dr. Páls Hreinssonar hafi hann ákveðið að senda nefndinni ofangreind bréfaskipti til upplýsingar.

  

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra, dags. 23. sept. 2020

Bréf umboðsmanns til forsætisráðuneytis, dags. 23. sept. 2020

Svarbréf forsætisráðuneytis, dags. 8. okt. 2020

Svarbréf heilbrigðisráðuneytis, dags. 13. okt. 2020

Bréf umboðsmanns til forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra, dags. 23. okt. 2020