31. ágúst 2021

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2020

Í skýrslu umboðsmanns er fjallað um það helsta í starfseminni á árinu 2020. Á liðnu ári var leyst úr 544 málum. Þar af voru 27 álit þar sem umboðsmaður beindi tilmælum til stjórnvalda og 57 bréf þar sem ábendingum var komið á framfæri.

Metfjöldi kvartana barst á liðnu ári eða 540 talsins sem er tæplega þriðjungs fjölgun frá árinu 2019 þegar þær voru 411. Afgreiddum málum fjölgaði enn meira eða um rúman helming. Þessi fjöldi endurspeglar þó ekki öll mál eða erindi sem umboðsmanni berast þar sem utan standa t.d.  óskir um upplýsingar eða leiðbeiningar vegna samskipta við stjórnvöld eða frá stjórnvöldum. Þá eru ekki heldur meðtaldar allar þær ábendingar sem berast vegna frumkvæðiseftirlits umboðsmanns, t.d. vegna málefna tengdum COVID-19. Þessi þróun hélt áfram á fyrri helmingi þessa árs, en þá bárust 315 kvartanirnar sem er tæplega 20% vöxtur miðað við sama tíma í fyrra. Afgreiddum málum fjölgaði svo enn meira eða um liðlega 36% og voru 323 fyrstu sex mánuði ársins 2021.

Tafamál ekki lengur fyrirferðarmest

Allt frá upphafi hafa kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum verið stærsti málaflokkurinn hjá umboðsmanni en nú varð sú breyting á að kvartanir opinberra starfsmanna urðu í fyrsta sinn flestar. Þá tvöfaldaðist fjöldi kvartana milli ára vegna aðgangs að gögnum og upplýsingum. Slík mál tengjast raunar stundum starfsmannamálum, einkum ráðningum og uppsögnum.

Líkt og getið var um í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 2019 voru aðstæður til að sinna frumkvæðismálum erfiðar og er áfram leitað leiða til úrbóta í því efni. Ýmis málefni innan stjórnsýslunnar eru þess eðlis að þau koma ekki eða geta ekki, af ýmsum ástæðum, komið til skoðunar hjá umboðsmanni á grundvelli kvörtunar. Þetta eru m.a. mál er varða hópa sem standa höllum fæti eða hafa ekki sterka rödd og brýnt að umboðsmaður geti brugðist við þegar ábendingar berast. Um leið er þetta vettvangur til að taka upp mál sem hafa almenna þýðingu og geta leitt til umbóta í stjórnsýslunni. Þegar fyrir liggur að umboðsmaður hefur að eigin frumkvæði ákveðið að taka málefni til skoðunar getur það að sama skapi verið til þess fallið að fækka kvörtunum og ábendingum á því sviði.

Sú aðstaða sem uppi er vegna COVID-19 sýnir til að mynda þörfina á því að umboðsmaður hafi raunhæft svigrúm til að taka mál upp af eigin frumkvæði. Málefnið varðar almenning augljóslega miklu líkt og sjá má af því að fyrstu sex mánuði ársins 2021 bárust um 50 kvartanir og ábendingar vegna mála af þessum toga. Þau voru hins vegar fæst þess eðlis að umboðsmaður gæti fjallað um þau á grundvelli kvörtunar.

Eftirlit með aðbúnaði frelsissviptra

Áhrifa COVID-19 gætti einnig í OPCAT-eftirliti umboðsmanns. Farið var í eina heimsókn í fangelsið á Hólmsheiði áður en faraldurinn hófst en þær urðu ekki fleiri á árinu vegna aðstæðna í samfélaginu. Á árinu var hins vegar lögð áhersla á að ljúka skýrslum um fyrri heimsóknir og móta stefnu um framhald eftirlits. Eftirlitsheimsóknir hófust á ný í janúar síðastliðnum með heimsókn í fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum, Leifsstöð og öryggisdeild Litla-Hrauns. Í júní síðastliðnum var svo fyrstu OPCAT-skýrslu umboðsmanns, sem gerð var í kjölfar heimsóknar á Klepp síðla árs 2018, fylgt eftir. Þá eru ótaldar ýmsar fyrirspurnir umboðsmanns vegna málefna tengdum COVID-19, svo sem um aðbúnað fólks í sóttvarnarhúsum og forgangsröðun við bólusetningar.

Rafræn skýrsla og meira efni á vefnum

Fyrir tveimur árum var formi og framsetningu skýrslu umboðsmanns breytt þannig að hún yrði fyrst og fremst gefin út rafrænt. Leitast hefur verið við að stytta skýrsluna enda álit og annað efni með almenna þýðingu nú alla jafnan birt á vef embættisins í kjölfar lykta. Af því leiðir að ekki er fjallað um öll álit ársins í skýrslunni heldur yfirlit birt og einungis þau mál sem ástæða þykir til að tíunda sérstaklega. Ítarlega umfjöllun um einstök álit og viðbrögð stjórnvalda er að finna á vefnum. Með því að smella á númer hvers og eins í rafrænni útgáfu skýrslunnar má kalla það fram úr gagnasafni umboðsmanns.

Þakkir til fyrrverandi umboðsmanns

Eftir liðlega 22 ár í starfi umboðsmanns Alþingis fékk Tryggvi Gunnarsson lausn frá embætti frá og með 1. maí sl. Í skýrslunni eru honum færðar þakkir fyrir farsælt starf og að hafa verið brautryðjandi mikilvægra umbóta í íslenskri stjórnsýslu og þá ekki síður fyrir að hafa áunnið embætti umboðsmanns traust almennings og stjórnvalda með sjálfstæði, einurð og heiðarleika í störfum sínum. 

   

  

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2020