31. maí 2021

Gæta þarf að réttindum gæsluvarðhaldsfanga sem vistaðir eru með afplánunarföngum

Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til stjórnenda fangelsisins á Hólmsheiði að gæta þess að blöndun gæsluvarðhalds- og afplánunarfanga feli ekki sjálfkrafa í sér skerðingu á réttindum sem gæsluvarðhaldsfangar eigi að öðru óbreyttu að njóta, svo sem aðgengis að fjarskiptatækjum. Í fangelsinu eru gæsluvarðhaldsfangar í lausagæslu yfirleitt vistaðir meðal afplánunarfanga sem kann í einhverjum tilvikum að leiða til þess réttindi þeirra sæti meiri takmörkunum en efni standa til. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu á grundvelli OPCAT-eftirlits umboðsmanns.

Gerðar eru athugasemdir við ákvarðanir um líkamsleit og sýnatöku og bent á að meta þurfi hverju sinni hvort slík inngrip séu nauðsynleg. Umboðsmaður beinir því til fangelsisins að haga líkamsleit þannig að hún fari fram í áföngum og fangi sé ekki fullkomlega berháttaður. Bent er á að sambærilegt verklag og hefur tíðkast á Hólmsheiði hafi komið til skoðunar hjá áfrýjunardómstól í Noregi sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að slík leit hafi brotið í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Umboðsmaður bendir stjórnvöldum einnig á að athuga hvort endurskoða þurfi það nám sem föngum býðst í fangelsinu. Meðal annars hvort hægt sé að bjóða staðnám og auka fjölbreytni. Þá er mælst er til þess að skipulag verði endurskoðað svo fangar verði ekki af líkamsræktar- eða útivistartíma vegna vinnu eða náms og að einangrunarföngum standi til boða að hreyfa sig daglega ef ástand þeirra leyfi. Einnig eru tilmæli gefin um að gæta betur að upplýsingagjöf til fanga og skráningu í tengslum við valdbeitingu og íþyngjandi ákvarðanir.

Í viðtölum við fanga og starfsfólk á Hólmsheiði kom fram að aðbúnaður í fangelsinu þætti almennt góður. Það er í samræmi við athugun umboðsmanns sem setur þó fram tilmæli með tilliti til öryggis vegna aðbúnaðar í klefum og möguleika einangrunarfanga á að sjá hvað tímanum líður.

Tilmæli og ábendingar í skýrslunni eru að hluta í samræmi við athugasemdir sem hafa verið gerðar áður við starfsemi og aðbúnað í fangelsum hér á landi. Óskar umboðsmaður eftir að stjórnvöld geri grein fyrir viðbrögðum sínum fyrir 1. desember 2021.

  


  

Þetta er fimmta skýrsla umboðsmanns á grundvelli OPCAT-eftirlits hans en það felur einkum í sér að heimsækja staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu og úttekt á aðbúnaði þeirra og starfsemi viðkomandi staðar.

   

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit í fangelsinu á Hólmsheiði

Eldri skýrslur

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit í fangelsinu á Sogni

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit í fangageymslu lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á neyðarvistun Stuðla

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á Landspítala Kleppi