26. júní 2023

Umbætur á Loftbrú fyrir börn í varanlegu fóstri

Í kjölfar úrbóta hjá Vegagerðinni á þá leið að fósturforeldrar geti nú sótt afsláttarkóða fyrir fósturbörn sín í Loftbrú og vegna frekari breytinga sem fyrirhugaðar eru á kerfinu, aðhefst umboðsmaður ekki frekar að svo stöddu.

Athugun umboðsmanns hófst í mars í kjölfar fréttar um að fósturforeldrar barna í varanlegu fóstri hefðu ekki getað nýtt Loftbrú fyrir börnin. Þar var greint frá því að vegna persónuverndarsjónarmiða teldi Vegagerðin sér ekki fært að taka á móti umsóknum með öðrum hætti en rafrænum. Umboðsmaður spurði m.a. um hvaða sjónarmið um persónuvernd kæmu í veg fyrir að hægt væri að beita öðrum aðferðum en rafrænum til að leysa málið. Einnig með hvaða hætti þau, sem ekki vildu eða gætu sótt um styrki úr Loftbrú með rafrænum skilríkjum, væru upplýst um að annar kostur væri í boði.

Í svari Vegagerðarinnar til umboðsmanns kom fram að svör hennar til blaðamanns á sínum tíma hefðu verið byggð á misskilningi. Nú sé hægt að sækja handvirkt um afsláttarkóða fyrir fósturbörn og unnið sé að því að það verði einnig hægt rafrænt. Þá sé unnið að því að bæta leiðbeiningar varðandi Lofbrú. Umboðsmaður óskar eftir upplýsingum um framvindu þeirrar vinnu eigi síðar en í byrjun október.

   

   

Bréf umboðsmanns til Vegagerðarinnar

  

Tengdar fréttir

Loftbrú aftur til athugunar

Annmarkar á rafrænni stjórnsýslu

Vegagerðin spurð hvort rafræn skilríki séu nauðsynleg til að nýta Loftbrú