07. september 2022

Starfssvið umboðsmanns og skilyrði til að kvörtun sé tæk til umfjöllunar

Umboðsmanni berast iðulega kvartanir og ábendingar sem af ýmsum ástæðum er ekki hægt að taka til nánari skoðunar, t.d. ef málin falla utan valdsviðs hans. Í nýbirtri ársskýrslu getur að líta nokkur slík dæmi.

Í einu tilfelli var kvartað yfir meðferð íslenskra fjölmiðla og leitarvélar Google á persónuupplýsingum. Ráða mátti að viðkomandi vildi að umboðsmaður mæltist til þess að þeim yrði eytt. Þar sem kvartað var undan einkaaðila voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður tæki erindið til frekari meðferðar. Þeim sem kvartaði var hins vegar bent á að samkvæmt lögum um persónuvernd ætti fólk m.a. rétt á að fá óáreiðanlegar upplýsingar um sig leiðréttar og að persónuupplýsingum væri eytt að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Beiðni þess efnis þyrfti að beina til viðkomandi ábyrgðaraðila. Ef ekki væri orðið við slíkri beiðni mætti kvarta til Persónuverndar.

Í öðru máli var kvartað yfir að settur umboðsmaður hefði ekki tekið afstöðu til kvörtunarefna í máli sem var til lykta leitt og óskað eftir að umboðsmaður veitti álit sitt á tíu tilgreindum atriðum varðandi málið. Sá sem leitar til umboðsmanns á ekki fortakslausan rétt á því að erindi sé tekið til efnislegrar umfjöllunar heldur leggur umboðsmaður mat á það hvort og þá að hvaða marki kvörtun gefur tilefni til nánari athugunar og hefur til þess töluvert svigrúm. Með hliðsjón af fyrri afgreiðslu setts umboðsmanns og af erindinu nú, varð ekki annað ráðið en að í reynd fælist í því beiðni um endurskoðun málsins. Af lögum um umboðsmann leiðir að hann er sjálfstæður og óháður í störfum sínum og ber einn ábyrgð á afgreiðslu þeirra mála sem honum eru falin. Það er því ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður taki til endurskoðunar þau mál sem fyrri umboðsmaður, kjörinn eða settur, hefur fjallað um.

Þriðja dæmið er af kvörtun yfir viðbrögðum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við áliti umboðsmanns. Þar sem umboðsmaður hefur ekki réttarskipandi vald að lögum eru skorður á að hvaða marki hann getur tekið kvartanir, sem lúta að viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum hans, til frekari meðferðar. Þá er almennt ekki heldur gert ráð fyrir að hann taki afstöðu til bótaskyldu eða fjárhæðar bóta. Þegar svo háttar til, eins og í þessu tilfelli, hefur umboðsmaður alla jafna lokið málum með vísan til þess að eðlilegt sé að dómstólar leysi úr slíkum ágreiningi og var viðkomandi bent á það.

Þá var kvartað yfir samskiptum við þingmann á samfélagsmiðlum. Umboðsmaður benti á að hann hefði ekki eftirlit með framkomu eða skoðanaskiptum einstaklinga nema það væri í tengslum við skyldur þeirra sem opinberra starfsmanna samkvæmt lögum eða viðeigandi siðareglum. Þingmenn væru ekki starfsmenn stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga aukinheldur sem starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis. Ekki væru því skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

Að síðustu var tekið dæmi í skýrslunni af kvörtun yfir sætaskipan í flugi hjá flugfélaginu Play en þar sem starfsemi þess fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns voru ekki lagaskilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar.

 

 

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2021